
Thierry Henry var langt frá því að vera ánægður með varnarleik Barcelona eftir 3-3 jafntefli liðsins gegn Club Brugge í Meistaradeildinni í gær.
Barcelona þurfti þrisvar að jafna metin í Belgíu. Ferran Torres, Lamine Yamal og sjálfsmark Christos Tzolis sáu til þess að liðið fékk stig, en heimamenn komust alltaf yfir og gáfu Katalóníumönnum lítið svigrúm.
„Ég vil ekki tala svona um gamla félagið mitt, en þú getur ekki haldið áfram að verjast svona illa,“ sagði Frakkinn.
Barcelona hefur fengið á sig 13 mörk í 11 leikjum í deildinni heima fyrir og 7 mörk í fjórum Meistaradeildarleikjum.
„Þú getur ekki leyft leikmönnum að komast endalaust að markinu þínu. Þú ert að búa til vandann sjálfur,“ sagði Henry enn fremur.