Samkvæmt enskum blöðum er Steven Gerrard í bílstjórasætinu fyrir óvænta endurkomu til Rangers.
Liverpool-goðsögnin, sem er 45 ára, hefur verið atvinnulaus síðan hann yfirgaf sádi-arabíska félagið Al-Ettifaq í janúar.
Nú gæti hann hins vegar snúið aftur á Ibrox, félaginu sem hann stýrði áður með góðum árangri.
Rangers leita að nýjum knattspyrnustjóra eftir að Russell Martin var sagt upp í gærkvöldi, aðeins 123 dögum eftir að hann tók við.
Martin náði aðeins einum sigri í sjö leikjum, en þrátt fyrir að aðeins hafa tapað einum leik þá duttu fimm jafntefli illa í kramið hjá stjórninni. Eftir 1-1 jafntefli gegn Falkirk í síðasta leik var honum sagt upp.
Rangers eru nú 11 stigum á eftir toppliði Hearts í skosku úrvalsdeildinni og ljóst að félagið vill bregðast hratt við. Gerrard gæti því komið aftur til Glasgow, hann stýrði liðinu áður frá 2018 til 2021 og vann deildina árið 2021 án taps.