

Spænski knattspyrnumaðurinn Ernest Queralt hefur látið lífið eftir skelfilegt slys þar sem glerbrot úr verslunarglugga stakkst inn í kvið hans.
Queralt, sem var 38 ára, lék innanhússknattspyrnu fyrir lið í Katalóníu og var vel þekktur í heimabæ sínum.
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum féll hann óvart á glugga bókabúðar í borginni Reus snemma á laugardagsmorgun. Við fallið brotnaði glerið og stykki úr því stakkst inn í líkamann. Lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu en útilokar hvers kyns saknæmt athæfi.
Hinn slasaði var fluttur á sjúkrahús í Tarragona, um 10 kílómetra frá vettvangi, en lést skömmu eftir komu þangað þrátt fyrir aðgerðir lækna.
Fréttir af slysinu bárust fyrst á sunnudag, en þá varð ljóst að hinn látni var virkur leikmaður í katalónsku futsal-deildinni og hafði leikið með nokkrum liðum á svæðinu.
Atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan sjö að morgni á götu sem liggur að gamla markaðstorginu í Reus. Fjölskylda, félagar og liðsfélagar hafa minnst hans á samfélagsmiðlum og lýst sorginni. Útför hans fer fram í dag og er búist við að margir úr íþróttasamfélagi svæðisins mæti til að kveðja hann.