Málefni Vals voru til umræðu í Stúkunni á Sýn Sport í gær og þar var rætt um Sigurð Egil Lárusson, sem er að yfirgefa herbúðir félagsins.
Mikið hefur gengið á í málefnum þessara aðila undanfarið, Sigurður fær ekki nýjan samning hjá félaginu og var tilkynnt það með skilaboðum á Facebook Messenger frá aðila úr stjórn félagsins.
Guðmundur Benediktsson birti skilaboðin sem Sigurður fékk frá stjórnarmanni Vals í í Stúkunni í gærkvöldi.
Skilaboðin sem Sigurður fékk frá stjórnarmanni Vals:
Sæll. Ætlum ekki að semja við þig. Ætlum að gera póst á Facebook og tala vel um þig. Sjáumst á sunnudaginn.
„Valsmenn tilkynntu honum að þeir ætluðu ekki að semja við hann, það er val félaga að ákveða við hverja þeir semja. Síðan er hægt að velta því fyrir sér hvernig er staðið að þeim hlutum,“ sagði Gummi Ben í Stúkunni í g´r og birti svo skilaboðin.
Gummi Ben hélt svo áfram. „Þetta er viðskilnaður við Sigurð Egil Lárusson eftir þrettán ár. Það hlýtur að vera hægt að gera þetta á betri hátt, við sáum að Valur kom með yfirlýsingu í dag. Það getur enginn gert kröfu á það að Valur semji við Sigga. Heldur viðskilnaðurinn sem manni blöskrar aðeins,“ sagði Gummi Ben um Sigurð sem er leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar hjá Val.
Gummi Ben segist hafa heimildir úr herbúðum Vals, hann segir að Srdjan Tufegdzic, þjálfari liðsins hafi farið á fund stjórnar fyrir helgi og beðið hana um að semja við Sigurð.
„Ég hef mjög góðar heimildir fyrir því að Túfa fór á fund stjórnar Vals, rétt fyrir helgi og biðji um að samið sé við Sigurð, honum er þar tilkynnt að það sé ekki hans að sjá um þessi mál,“ sagði Gummi Ben.
Meira:
Yfirlýsing frá Hlíðarenda: „Þykir leitt að leikmaðurinn sé ósáttur við aðkomu okkar að málinu“