Það var vakin athygli á háu miðaverði á Meistaravelli, heimavöll KR, á leiki í Bestu deild karla í Innkastinu á Fótbolta.net.
KR-ingar eru á botni deildarinnar en það hefur ekki breytt því að vel er mætt á leikina. Félagið fær vel í kassann því miðaverðið er með hæsta móti hér landi, en það kostar 3500 krónur inn.
„Það kostar 3500 kall inn á KR-völlinn. Það er helvíti vel í lagt,“ sagði Valur Gunnarsson í Innkastinu.
„Ég fór í smá rannsóknarvinnu og það er dýrara en á einhverja leiki í Noregi,“ sagði hann enn fremur.
KR á eftir að mæta ÍBV og Vestra og þarf að vinna báða leiki til að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.