Elíasi Rafni Ólafssyni landsliðsmarkverði var hent á bekkinn fyrir stórleik Midtjylland gegn FC Kaupmannahöfn í gær. Var þjálfarinn Mike Tullberg að refsa honum fyrir að mæta ekki á fund í aðdraganda leiksins.
Þetta kemur fram á Bold, en Tullberg segir Elías hafa misst af fundi þar sem átti að fara yfir taktík. Eitt gangi yfir alla í slíkum málum og þá kemur ekki til greina að þeir byrji. Þess má geta að leiknum lauk með 1-1 jafntefli á Parken.
Elías vann sér inn sæti aðalmarkvarðar í landsliðinu í síðasta landsleikjaglugga og stóð sig afar vel gegn Aserbaísjan og Frökkum. Má því búast við að hann verði milli stanganna gegn Úkraínu og Frakklandi hér heima í undankeppni HM á komandi dögum.
Elías hefur verið í harðri baráttu við Jonas Lössl, sem er stórt nafn í danska boltanum, hjá Midtjylland undanfarin ár og því er atvik helgarinnar óheppilegt.