Íslenska kvennalandsliðið endar EM í Sviss án þess að vinna leik en liðið spilaði við Noreg nú í kvöld.
Ísland var úr leik fyrir viðureign kvöldsins eftir tap gegn Finnlandi í fyrstu umferð og svo gegn Sviss í þeirri annarri.
Noregur sem er með mjög sterkt lið ákvað að hvíla lykilmenn í leiknum enda liðið komið áfram í útsláttarkeppnina.
Sveindís Jane Jónsdóttir kom Íslandi yfir eftir sex mínútur og gaf Íslendingum von um að fá sín fyrstu stig.
Noregur átti hins vegar eftir að skora fjögur mörk og var komið í afskaplega góða stöðu lengi vel en þær Signe Gaupset og Frida Maanum gerðu báðar tvennu.
Hlín Eiríksdóttir lagaði stöðuna fyrir Ísland undir lokin og Glódís Perla Viggósdóttir bætti svo við þriðja marki Íslands úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Flottur karakter í íslenska liðinu sem tapar 4-3 en getur labbað stolt af velli eftir frammistöðuna í lokaleiknum.