Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tók illa í spurningu um framtíð sína á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Noregs á EM á morgun.
Íslenska liðið er þegar úr leik eftir töp gegn Finnlandi og Sviss í riðlinum og skiptir leikurinn á morgun því engu máli. Það eru gífurleg vonbrigði í léttasta riðli mótsins og hefur framtíð Þorsteins verið í umræðunni.
„Ég er búinn að fá þessa spurningu svo oft og ég er ekki að fara að svara henni daginn fyrir leik. Mér finnst þetta skrýtin spurning,“ sagði Þorsteinn er hann var spurður út í framtíð sína.
Var hann þá líka ósáttur við að leikmaður hafi fengið spurningu um framtíð þjálfarans eftir tapið gegn Sviss. „Mér finnst líka fáránlegt að spyrja leikmann út í framtíð þjálfarans eftir leik. Mér finnst það dónalegt og nautheimskulegt.“