Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Hildur Antonsdóttir fékk tvö gul spjöld og þar með rautt í fyrsta leik Íslands á EM gegn Finnlandi á miðvikudag. Það tók hana tíma að jafna sig en leikmenn og þjálfarar stóðu þétt við bakið á henni.
„Auðvitað var þungt högg fyrir Hildi að vera rekin út af. Það tekur alltaf smá tíma að jafna þig á því. En hún tekst á við þetta með jákvæðum hug. Nú einbeitir hún sér að því að vera klár í þriðja leikinn. Við höfum stutt hana vel,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari um málið á blaðamannafundi í gær.
Þorsteinn segir högg fyrir íslenska liðið að missa Hildi í bann í leik kvöldsins gegn Sviss en hann hefur ekki áhyggjur af því að það takist ekki að leysa það.
„Auðvitað er hún búin að vera lykilmaður hjá okkur í tvö ár. Hún hefur staðið sig gríðarlega vel. Við þurfum að gera breytingu en óttumst það ekkert. Ég tel okkur vera með hóp í að takast á við þetta.“
Ísland þarf á sigri að halda gegn Sviss í kvöld eftir tap gegn Finnum í fyrsta leik.