Íslenska kvennalandsliðið er úr leik á EM í Sviss eftir tap gegn gestgjöfunum í annarri umferð riðlakeppninnar.
Ísland tapaði opnunarleiknum 1-0 gegn Finnum og þurfti á stigi að halda til að eiga möguleika á að komast áfram.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir ræddi við 433.is eftir leikinn í kvöld og var að vonum svekkt með tapið en er ákveðin í að gera betur í næsta leik.
,,Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Mér fannst við eiga meira inni, við erum frábært lið en þetta var stöngin út í dag og þá langar mig ekkert meira en að ná þremur stigum í næsta leik,“ sagði Karólína.
,,Við hefðum oft getað gert betur. Við vorum stundum að dúndra honum langt í stað þess að finna svæðin á miðjunni, það var opið á miðjunni í dag.“
,,Það var geggjað að sjá hvað voru margir í stúkunni að styðja okkur áfram allan tímann. Ég held að við eigum bestu stuðningsmennina og mig langar ekkert meira en að gefa þeim sigur í næsta leik.“