Íslenska kvennalandsliðið er úr leik á EM eftir tap gegn gestgjafaþjóðinni Sviss í kvöld. Hér neðar eru einkunnir leikmanna Íslands.
Leikurinn var jafn lengi vel eins og við var að búast og fengu bæði lið sín færi. Íslenska liðið skaut til að mynda tvisvar í slána.
Stelpurnar okkar spiluðu vel í seinni hálfleik en fengu högg í magann þegar stundarfjórðungur lifði leiks er Geraldine Reuteler slapp í gegn og skoraði.
Við þetta varð íslenska liðið vankað og Sviss bætti öðru marki við eftir skyndisókn í uppbótartíma. Var þar að verki Alayah Pilgrim.
Lokatölur urðu 2-0 fyrir Sviss. Ísland er án stiga eftir tvo leiki og úr leik þó svo að einn leikur sé eftir gegn Noregi.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir – 7
Varði nokkrum sinnum vel og gat lítið gert í mörum Sviss
Guðný Árnadóttir (33′) – 6
Eins og flestir í íslenska liðinu steig hún upp þessar rúmu 30 mínútur sem hún spilaði. Fór meidd af velli, vonandi ekkert of alvarlegt.
Glódís Perla Viggósdóttir – 7
Yfirveguð frammistaða í endurkomu fyrirliðans úr veikindum.
Ingibjörg Sigurðardóttir – 6
Heilt yfir fínn leikur og skoraði næstum í byrjun. Hugsanlega má setja spurningamerki við varnarleikinn í marki Sviss.
Guðrún Arnardóttir – 6
Fín frammistaða og bjargaði nokkrum sinnum vel.
Dagný Brynjarsdóttir – 7
Kom með mikla yfirvegun og reynslu inn á miðjuna og gerði allt sitt mjög vel.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir – 6
Smá ólík sér í byrjun og enn vann sig vel inn í leikinn. Eins og áður finnst manni samt að það þurfi að koma henni meira á boltann.
Alexandra Jóhannsdóttir – 6
Skildi allt sitt eftir og átti ágætis leik á miðjunni.
Agla María Albertsdóttir (67′)- 7
Bauð upp á mikinn kraft og dugnað, líkt og þegar hún kom inn á gegn Finnum í síðasta leik.
Sandra María Jessen – 7 – Maður leiksins
Frábær í flestum þáttum leiksins. Vann gríðarlega vel til baka, barðist og pressaði endalaust og kom með ógnandi hlaup einnig.
Sveindís Jane Jónsdóttir – 6
Kom sér í frábærar stöður en stundum vantaði upp á ákvarðanir á síðasta þriðjungi.
Varamenn
Sædís Rún Heiðarsdóttir (33′) – 6
Hafrún Rakel Halldórsdóttir (67′) – 6
Aðrar spiluðu of lítið til að fá einkunn