Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það er mikil hefð fyrir því hér í Thun að kasta sér í ána Aare, enda afar hressandi, og sérstaklega þegar heitt er úti eins og hefur verið undanfarið.
Undirritaður og aðrir íslenskir fjölmiðlamenn sem fylgja kvennalandsliðinu eftir á EM í Sviss hafa tekið upp á þessu líka í hitanum. Þá má heyra að íslenskir stuðningsmenn sem hér eru staddir í nokkuð miklum mæli hafa tekið upp þessa skemmtilegu venju einnig.
Nokkur straumur er í ánni og því hægt að láta sig fljóta góða vegalengd, og svo eru staðir víða til að komast ofan í og upp úr.
Aare-áin er löng og langi mann til þess er hægt að láta sig fljóta alla leið frá Thun til Bern til að mynda, en þar fer næsti leikur Íslands á EM einmitt fram.
Tekur það um þrjár klukkustundir miðað við upplýsingar frá starfsmanni á svæðinu niðri við á. Maður leigir sér einfaldlega gúmmíbát í verkefnið og þá er allt klárt. Spurning hvort einhver nýtir sér þennan faramáta á sunnudag.
Íslenska kvennalandsliðið mætir heimamönnum í Sviss í leiknum á sunnudag og þarf á sigri að halda eftir svekkjandi tap við Finnland í fyrsta leik.