Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
BBC setur spurningamerki við að leikur Íslands og Finnlands hafi verið fyrsti leikur EM, sem nú er í fullum gangi í Sviss.
Finnland vann leikinn 1-0, en hann fór fram áður en formlegur opnunarleikur mótsins, Sviss gegn Noregi, var spilaður um kvöldið.
„Á meðan EM 2022 hófst á stórkostlegan hátt, með sigri Englands á Austurríki fyrir framan næstum 70 þúsund áhorfendur á Old Trafford þá hófst mótið í Sviss á 8100 manna leikvangi með nokkrum auðum sætum,“ segir í umfjöllun BBC um leikinn.
Mótið á Englandi fyrir þremur árum naut mikilla vinsæla og stóðu heimamenn, Englendingar, uppi sem sigurvegarar.
„Þetta var furðuleg leið til að hefja mótið, en fjörið byrjar í kvöld þegar Sviss tekur á móti Noregi með tilheyrandi opnunarhátíð í Basel í kvöld.“
Þess má geta að Noregur hafði svo betur gegn gestaþjóðinni Sviss síðar á miðvikudagskvöld.
Ísland mætir Sviss í næsta leik á sunnudag og svo Noregi á fimmtudag. Eftir tapið gegn Finnum í fyrstu umferð er allt undir og má íslenska liðið allavega alls ekki tapa næsta leik gegn heimamönnum.