Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það fór ekki framhjá mörgum að íslenska kvennalandsliðið hóf leik á EM í gær. Niðurstaðan var svekkjandi tap við Finnland, en við taka leikir gegn Sviss og Noregi þar sem allt er undir í riðlakeppninni.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, ræddi við 433.is um hvernig það er fyrir sambandið að ráðast í svo stórt verkefni að fara með landslið á svona mót.
„Það eru margar hendur og búið að taka dágóðan tíma. Strax þegar liðið komst áfram þurfti að byrja að undirbúa. Það er þekking og kunnátta sem hafa hjálpað innandyra hjá okkur. Starfsfólk hefur gert þetta áður og hefur mikinn áhuga,“ sagði Þorvaldur.
Hann ræddi sömuleiðis um mikla framþróun kvennaknattspyrnunnar undanfarin ár í viðtalinu.
„Bara á síðustu tveimur árum er hún búin að stækka gríðarlega. Ef við miðum við deildarkeppnirnar í stærstu löndunum eru þær orðnar gríðarlega góðar. Við sjáum líka fjölgunina á þessu móti og hvað miðasalan gengur vel.“