Jóhann Berg Guðmundsson hefur skrifað undir hjá nýju félagi en hann er orðinn leikmaður Al Dhafra í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Þetta staðfesti félagið í kvöld en Jóhann Berg kemur til félagsins á frjálsri sölu frá Al-Orobah.
Íslenski landsliðsmaðurinn hafði spilað með Al-Orobah í tæpt ár en hann gerði samning í Sádi Arabíu í ágúst í fyrra.
Jóhann Berg er þekktastur fyrir tíma sinn á Englandi en hann lék með Burnley frá 2016 til 2024.
Al Dhafra var stofnað árið 2000 og leikur á fimm þúsund manna heimavelli og er nýbúið að tryggja sér sæti í efstu deild í heimalandinu.