Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson þjálfari Íslands segir finnska landsliðið líta svo á að það verði að hafa betur gegn Stelpunum okkar í fyrsta leik á EM á morgun.
Þorsteinn sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Kom hann þar inn á að fólkið í kringum finnska liðið hafði fagnað þegar það dróst gegn Íslandi, en í riðlinum eru einnig Noregur og Sviss.
Á blaðamannafundi fyrr í dag töluðu fulltrúar finnska liðsins um að íslenska liðið væri sigurstranglegra fyrir leik morgundagsins.
„Það er ekkert óeðlilegt að tala þannig ef við horfum í stöður og það sem á undan hefur gengið. En finnska liðið er gott og mjög vinnusamt. Við þurfum að vera á okkar besta degi til að vinna þær,“ sagði Þorsteinn.
„Þetta er tálsmáti sem þær nota en ég veit að þær horfa í það að verða að vinna þennan leik á morgun.“
Hvað leikinn sjálfan og markmið Íslands varðar var Þosteinn skýr í svörum.
„Þetta eru bara þrír leikir svo þeir skipta allir gríðarlegu máli. Fyrsti leikur skiptir miklu máli upp á framhaldið. Við munum gera allt til að vinna þennan leik en svo sjáum við til hvað kemur úr því. Fyrsti leikur er alltaf gríðarlega mikilvægur til að setja tóninn fyrir framhaldið.“