Fjölmiðlamaðurinn umdeildi Piers Morgan hafði engan húmor fyrir því að stuðningsmenn Liverpool bauluðu á Trent Alexander-Arnold gegn Arsenal í gær.
Trent er á förum frá Liverpool á frjálsri sölu og eru allar líkur á að áfangastaðurinn sé Real Madrid, þó það hafi ekki verið staðfest formlega.
Margir stuðningsmenn Liverpool hafa tekið illa í þessa ákvörðun kappans og var hressilega baulað á hann í sínum næstsíðasta heimaleik á Anfield í gær, í 2-2 jafntefli gegn Arsenal.
„Það er svo aumkunarvert af stuðningsmönnum Liverpool að baula á Trent Alexander-Arnold. Hann er einn af þeim sem hefur verið lengst hjá félaginu og verið því tryggur. Hann var að taka þátt í því að vinna deildina og vill prófa eitthvað nýtt erlendis. Takið til í hausnum á ykkur, trúðar,“ skrifaði Morgan á X.