Arsene Wenger fyrrum stjóri Arsenal segir það af og frá að Trent Alexander-Arnold hafi nýlega tekið þá ákvörðun að fara til Real Madrid.
Hann segir frá því hvernig Real Madrid gengur til verks þegar þeir vilja fá leikmann sem kostar sitt.
„Þetta sýnir bara hvernig leikurinn er að breytast, það er ekkert kaupverð fyrir stóru leikmennina. Þeir klára samningana því launin eru svo gríðarleg,“ sagði Wenger.
„Real Madrid byrjar þegar tvö ár eru eftir af samningi, segjast vilja kaupa þig og bjóða þér þessi laun, Þeir gera svo tilboð, þeir segjast koma aftur að ári þegar eitt ár er eftir af samningi. Ef það virkar ekki þá láta þeir vita að þeir taki leikmanninn frítt.“
„Svona gerðu þeir þetta þegar þeir tóku Kylian Mbappe.“
Wenger segir að samtalið við Trent hafi byrjað fyrir löngu. „Það er svo langt síðan að Real byrjaði að tala við Trent.“
Trent hefur haldið því fram að hann hafi nýlega tekið ákvörðun en Wenger segir það af og frá. „Þetta gefur Liverpool tíma til að finna annan varnarmann, það verður erfitt að fylla skarð hans.“