Arsenal er farið að leggja meira kapp á samningaviðræður við William Saliba vegna áhuga Real Madrid á leikmanninum.
Þetta kemur fram í blaðinu L’Equipe í heimalandi kappans, Frakklandi, en Saliba hefur verið mikið orðaður við Real Madrid undanfarið.
Samningur miðvarðarins rennur út eftir tvö ár og er Real Madrid þekkt fyrir að sækja leikmenn þegar stutt er eftir af samningi þeirra, eða þá að fá þá frítt þegar þeir renna út.
Arsenal vill alls ekki missa Saliba, sem er algjör lykilmaður í liðinu, og er talið að það myndi kosta um 85 milljónir punda, ef félagið er til í það á annað borð.
Andrea Berta tók nýverið við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal, en hann starfaði áður lengi hjá nágrönnum Real Madrid í Atletico Madrid.
Þekkir hann taktík félagsins því vel á leikmannamarkaðnum og vill forðast það að forráðamenn þess komist inn í hausinn á Saliba og taki hann svo ódýrt eftir ár eða frítt árið eftir.
Því er það í algjörum forgangi hjá Arsenal að semja við Saliba sem fyrst, en viðræður hafa átt sér stað undanfarnar vikur.