Viðar hefur mikið verið milli tannanna á fólki á leiktíðinni en hann hefur verið inn og út úr KA-liðinu. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var spurður út í fjarveru Viðars úr leikmannahópi KA í sigrinum á Fram í gær. Svaraði hann því að Viðar hafi verið að standa sig nægilega vel á æfingum. Tók hann fyrir það að fjarveran væri vegna daprar mætingar Viðars á æfingar KA.
„Þetta er miklu meira en áhugavert. Það er fíll í herberginu og allt eins gott að „addressa“ það. Hallgrímur er spurður leik eftir leik hver staðan sé á honum, hvort hann sé að mæta á æfingar. KA þarf á einhverjum tímapunkti að taka einhverja ákvörðun í þessu. Verður Viðar Örn þarna til einhverra ára? Mun hann nýtast liðinu ef hann er ekki nógu góður til að komast í hóp núna? Maður veltir þessu fyrir sér því sama staða var uppi fyrir mánuði, þá var hann ekki í hóp af því hann var ekki að standa sig nógu vel á æfingum. Hann kom í mars og það er að koma júlí,“ sagði Íþróttafréttamaðurinn Gunnar Birgisson á RÚV í gær.
„Það eru fáir íslenskir leikmenn sem eiga jafn farsælan atvinnumannaferil og Viðar Örn. Svo KA þarf að taka einhverja ákvörðun af því þeir geta ekki verið í þessu limbói allan tímann. Viðar er leikmaður sem tekur fyrirsagnir hvort sem hann er í byrjunarliðinu eða ekki í hóp. KA voru rosalega öflugir í kvöld. Hver er staðan á leikmannahópnum? Á að bíða eftir Viðari eða þarf mögulega að taka einhverja ákvörðun.“
Hörður Magnússon tók undir þessi orð Gunnars.
„Ég held að það sé augljóst vandamál. Þú þarft þá bara að slíta á þetta samstarf, sem virðist ekki hafa gengið upp einhverra hluta vegna. Þú þarft bara að leita annað.“
Viðar gekk í raðir KA í vetur eftir farsælan feril í atvinnumennsku en sem fyrr segir hefur ekki gengið sem skildi hjá honum fyrir norðan.