Chelsea á besta leikmann ensku úrvalsdeildarinnar í dag að sögn Wes Brown, fyrrum varnarmanns Manchester United.
Um er að ræða Cole Palmer, leikmann Chelsea, sem hefur byrjað tímabilið virkilega vel og er talinn einn sá besti í úrvalsdeildinni.
Palmer spilaði einnig frábærlega með Chelsea síðasta vetur og er á mikilli uppleið enda aðeins 22 ára gamall.
,,Cole Palmer er langbesti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir og á tímabilinu,“ sagði Brown.
,,Hann er svo ótrúlega rólegur á vellinum. Það er eins og hann sé bara úti í fótbolta með vinum sínum en hann tekur því líka alvarlega.“
,,Hann er aldrei stressaður í leikjum og er með öll þau gæði til að styðja þann eiginleika. Hann er nokkuð sérstakur leikmaður.“