Svo gæti farið að goðsögnin Eiður Smári Guðjohnsen verði aðstoðarmaður Arnars Grétarssonar hjá Kolding, taki sá síðarnefndi við starfinu.
Þetta kemur fram í dönskum miðlum og vekur Vísir athygli á fréttinni. Fyrr í dag var Arnar orðaður við þjálfarastarfið hjá Kolding, sem spilar í dönsku B-deildinni, í hlaðvarpinu Dr. Football.
Meira
Arnar Grétarsson sagður nálægt því að landa starfi í Danmörku
Kolding leitar að þjálfara og er Arnar sagður einn af þremur sem kemur til greina. Arnar hefur verið án starfs eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá Val í sumar.
Samkvæmt fréttum frá Danmörku hefur Arnar farið á tvo fundi með Kolding og þá kemur sem fyrr segir fram að Eiður Smári gæti komið inn sem aðstoðarmaður hans.
Arnar hefur starfað erlendis og meðal annars þjálfað lið í Belgíu en einnig verið sem yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu og Club Brugge.
Eiður Smári er fyrrum þjálfari FH og aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins.