Það vakti athygli um helgina þegar Dan Ashworth hætti sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United. Félagið leitar að arftaka hans.
United lagði mikið á sig til að landa Asworth, sem áður var í starfi hjá Newcastle, og kemur brottför hans því á óvart. Ashworth styrkti liðið nokkuð vel í sumar en gengið á leiktíðinni hefur verið skelfilegt það sem af er.
Sir Jim Ratcliffe og INEOS, sem á United, skoða nú aðra kosti og heldur ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio fram að Andrea Berta sé á blaði.
Berta hefur gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Atletico Madrid í 11 ár og þótt standa sig vel. Hann er hins vegar á förum eftir leiktíðina.
Í tíð Berta hefur Atletico til að mynda unnið spænsku deilina tvisvar og Evrópudeildina. Hann yrði án efa flottur fengur fyrir United.