Morgan Gibbs-White, leikmaður Nottingham Forest, var steinhissa í gær er hann sá skot sitt fara í netið gegn Manchester United.
Gibbs-White átti flottan leik í 3-2 sigri á Old Trafford en Englendingurinn sá um að skora annað mark gestaliðsins.
Miðjumaðurinn átti skot sem fór beint á markið en Andre Onana, markmanni United, mistókst af einhverjum ástæðum að koma boltanum burt.
,,Ég hélt alls ekki að boltinn væri á leiðinni inn ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Gibbs-White.
,,Ég vil ekki gera lítið úr Onana, hann er frábær markvörður en þegar ég skaut boltanum þá bjóst ég við því að hann myndi grípa knöttinn.“