Pep Guardiola, stjóri Manchester City, virðist vera búinn að gefast upp í titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni.
Guardiola og hans menn mættu Crystal Palace í gær en þeim leik lauk með 2-2 jafntefli á Selhurst Park.
City hefur alls ekki verið upp á sitt besta undanfarnar vikur og segir Spánverjinn að hans menn þurfi að þjást næstu mánuði til að komast á beinu brautina.
,,Við tökum stig úr þessum leik. Við börðumst virkilega vel og náðum að koma til baka tvisvar,“ sagði Guardiola.
,,Við þurfum að þjást á þessu tímabili. Við sjáum hvað gerist á lokametrunum. Við reyndum í dag og ég þarf að hrósa andstæðingnum.“
,,Við getum ekki talað um titilbaráttu þegar við höfum tapað fjórum leikjum í röð og gert eitt jafntefli. Við skoðum stöðuna undir lokin.“