KA og Stjarnan þurfa að mætast aftur í úrslitaleik um sigur í 4. flokki karla C-liða. Er það vegna mistaka sem dómari leiksins gerði en Stjarnan kærði framkvæmd leiksins. Frá þessu eru sagt á Akureyri.net.
Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og var leikurinn framlengdur, í stað þess að framlengja leikinn um 20 mínútur eins og reglur gera ráð fyrir þá framlengdi dómari leiksins hann um 10 mínútur.
Eftir framlengingu var jafnt og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar átti reglum samkvæmt að taka 5 spyrnur á lið en dómari leiksins lét liðin aðeins taka þrjár spyrnur.
KA vann leikinn en nú hefur KSÍ úrskurðað um að leika skuli framlengingu leiksins aftur og vítaspyrnukeppni ef þarf með. KA þarf að greiða allan ferðakostnað fyrir Stjörnuna í leikinn sem fram fer á Akureyri líkt og sá fyrri.
Foreldrum leikmanna KA þykir þetta miður og er Magni Ásgeirsson, söngvarinn geðþekki einn þeirra sem leggur orð í belg á Facebook. Hann á dreng í liðinu.
„Nokkrum dögum síðar fattaði síðan eh að þetta áttu að vera 2×10 mín í framlengingu og Stjarnan kærði framkvæmd leiksins- mannleg mistök hjá sjálfboðaliða sem var að dæma – enginn þjálfari reyndar sá neitt athugavert við þetta at the time 😉
…Stjörnuliðið er sumsé að koma norður á miðvikudaginn til að spila þessar 2×10 mín…. Mér finnst þetta geggjað,“ skrifar Magni.
Úr dómnum af Akureyri.net
Fallist er á kröfu Stjörnunnar:
Framlengingin skal fara fram að nýju, nú í 2 x 10 mínútur. Verði jafnt eftir framlengingu skal fara fram vítaspyrnukeppni, 5 spyrnur á hvort lið.
Leikið skal á heimavelli KA.
KA er gert að greiða ferðakostnað Stjörnunnar til Akureyrar og heim aftur. Tekið er fram að gæta skuli hagkvæmni í ferðakostnaði. Hann getur „aldrei numið hærri upphæð en sem nemur fargjaldi frá viðurkenndu rútufyrirtæki á umræddri leið. Sé ferðakostnaður hærri skal aðkomulið bera kostnað af mismun.“