Úrslitaleikur HM 2030 verður aldrei haldinn á goðsagnarkennda vellinum Santiago Bernabeu sem er í eigu Real Madrid.
Þetta segir stjórnmálamaðurinn David Escudé á Spáni en hann starfar í Barcelona – Spánn gerir sig líklegt til að halda HM eftir sex ár.
Samkvæmt Escudé þá stenst Bernabeu ekki kröfur FIFA fyrir úrslitaleik HM en völlur Barcelona, Nou Camp, stenst þær allar.
Escudé segir að Barcelona sé í engri samkeppni við Real um að hýsa þennan leik og hefur meiri áhyggjur af Marokkó.
Marokkó kemur einnig til greina sem gestgjafi HM 2030 en völlurinn Stade Hassan II stenst svo sannarlega allar kröfur og tekur 115 þúsund manns í sæti.
,,Eins og staðan er í dag þá stenst Bernabeu ekki kröfur FIFA og úrslitaleikurinn getur ekki farið fram þar,“ sagði Escudé.
,,Þessi nýi völlur í Marokkó er hins vegar valmöguleiki og einnig Spotify Camp Nou. Það eru vellirnir sem koma til greina.“
,,Það er engin samkeppni á milli okkar og Bernabeu sem er einfaldlega of lítill en Marokkó kemur til greina.“