Sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Alberti Guðmundssyni knattspyrnumanni vegna ákæru um nauðgun hefur verið birtur á vefsíðu dómstólanna.
Þar kemur fram að hinn örlagaríki atburður átti sér stað á heimili brotaþola eftir að dálítill hópur ungs fólks hafið farið þangað í einskonar eftirpartý eftir að hafa skemmt sér á staðnum Auto við Lækjargötu.
Undir morgun, eftir að Albert og konan voru orðin tvö eftir í íbúðinni, kom til kynferðislegra samskipta á milli þeirra sem þau eru sammála um að hafi átt sér stað. Albert hafi þá sett fingur í leggöng konunnar og síðan sleikt kynfæri hennar. Albert segir þetta hafa verið með vilja konunnar en konan segir þetta hafa verið gegn vilja hennar og staðfastri neitun. Hann hafi ennfremur verið harðhentur og ekkert skeytt um vilja hennar.
Albert hafa segist nokkrum dögum eftir atvikið fengið upplýsingar um að fólk í kringum konuna, þar á meðal bróðir hennar og kærasti hennar, „væri að ganga um bæinn og kalla hann nauðgara.“ Segir Albert að honum hafi krossbrugðið við það og tekið því illa enda litið á þetta fólk sem vini sína.
Tveimur dögum eftir atvikið ræddu Albert og brotaþoli saman í gegnum samfélagsamiðilinn Instagram. Skilaboð þeirra eru birt í texta dómsins. Konan sakar þar Albert um að hafa brotið gegn sér en hann harðneitar og tjáir undrun yfir ásökuninni.
„A segir meðal annars í skilaboðum sínum til ákærða 27. júní 2023 að hún hafi verið grátandi og ekki viljað „þetta“ og ákærði viti það vel. Ákærði svarar: „Okei whatttttt“. Ákærði heldur áfram: „Fyrsta lagi, þá í smá sjokki að þú hafi upplifað þetta þannig og finnst það leiðinlegt“. „Hafi upplifað þetta þannig? Ég sagði oft að mig langaði þetta alls ekki“, segir þá A. Ákærði svarar: „Ég lá í þessum sófa þegar þú komast í hann hálf nakin til min þanngað?“ Ákærði heldur áfram: „Og þegar þu sagðist vilja stoppa þá stoppaði eg? Og við hættum þá bara“. Ákærði heldur enn áfram: „Þa forsru að tala um H og L“. Því svarar A með orðunum: „X, ég sagði frá upphafi að mig langaði þetta ekki og þú sást mig gráta en hélst samt áfram“. Ákærði svarar: „Ha??? Nei þegar þu fórst að vera eitthvað leið þá stoppaði eg A????? Og þá forstu að tala um þau“, „Angrins eg það let mig stoppa STRAXXX“, „Ég hélt þú vildir þetta og ég var að fá þannig vibe þanngað til þú stoppaði mig og fórst að ræða H og“. Ákærði heldur áfram: „En ég samt skil ekki alveg, við spjölluðum heil lengi eftir þetta (um basically allt) og þú kysstir mig bæ- ég vissi ekki af neinu vondu vibei“. Ákærði heldur enn áfram: „Shit mér liður fáranlega illa að þér liði svona og þá var angrins það seinaasta sem eg var að búast við“.
A er ákærða ekki sammála: „Það er ekki satt, um leið og þú byrjaðir að gera eitthvað táraðist ég og svo fór ég bara að gráta.. þú sagðir við mig „af hverju ertu að grata“ og eg sagði er því ég vildi þetta ekki en samt hélstu áfram…þú reyndir endalaust að kyssa mig og ég horfði alltaf í burtu, helduru að manneskja vilji eitthvað þegar hún vill ekki kyssa þig og er grátandi?““
Konan átti myndsamtal við vinkonu sína rétt eftir atburðinn og lýsti þar ágengni Alberts sem auk þess hafi verið harðhentur. Mat vinkonan það svo að um nauðgun gæti hafa verið að ræða og hvatti brotaþola til að fara á sjúkrahús. Á neyðarmóttökunni var konunni vísað frá og látin mæta daginn eftir. Var hún þar tekin í viðtal en ekki í líkamsskoðun. Hjúkrunarfræðingur sem ræddi við brotaþola á neyðarmóttökunni sagði hana hafa verið skýra í tali en henni hafi ekki liðið vel. Önnur vitni greina frá mikilli vanlíðan konunnar í kjölfar atviksins.
Framburður bæði Alberts og brotaþola var af dómnum metinn staðfastur og trúverðugur. Hins vegar vann framburður brotaþola um tiltekið vitni sem hafði verið í partýinu mjög gegn henni, samkvæmt dómsniðurstöðu.
Tiltekið vitni bar að áður en hann yfirgaf íbúðina hafi hann setið stutta stund með Alberti og brotaþola í stofu íbúðarinnar, eftir að brotaþoli kom þangað á gráum hlýrabol og nærbuxum og með sæng. Hafi hún sest í sófann þétt upp við Albert. Kvaðst vitnið hafa ályktað að allt stefndi í framhjáhald á milli þeirra tveggja en bæði voru í sambandi með öðrum aðilum er atvikið átti sér stað.
Framburður mannsins um að hann hafi enn verið í íbúðinni þegar brotaþoli kom fram og settist inni í stofu fær stoð í framburði Alberts sjálfs og framburði tveggja annarra vitna. Brotaþolinn harðneitar því hins vegar að þetta vitni hafi verið í íbúðinni á þessum tíma og hún neitar þessum lýsingum á klæðaburði sínum, sem og aðrar lýsingar hans á atvikum. Hún segir að framburður þessa vitnis um atvik sé tilbúningur.
Í skýrslutökum hjá lögreglu nefndi brotaþoli ekki að þetta vitni hefði verið í íbúðinni um nóttina. Um þetta segir í texta dómsins, þar sem brotaþoli er kölluð A og umrætt vitni kallaður C:
„Það er mat dómsins að A hafi hvorki gefið trúverðugar né skynsamlegar skýringar á því, hvorki fyrir lögreglu né fyrir dómi, hvers vegna hún hafi ekki nefnt það að C hafi verið í íbúðinni þessa nótt, jafnvel þótt hún hafi ekki vitað nafn hans á þeim tíma. Allir aðrir sem í íbúðinni voru nefndu það að C hefði verið í íbúðinni, einnig þeir sem ekki þekktu til hans fyrir þetta kvöld, sem og C sjálfur. Er þar af leiðandi óskiljanlegt að A hafi ekki nefnt það í upphaflegri skýrslu sinni hjá lögreglu að C hafi verið í íbúðinni umrædda nótt, ásamt þeim B, D, E, F, henni sjálfri og ákærða, líkt og aðrir gerðu sem þar voru. Veikir það tvímælalaust framburð A í málinu.“
Það er mat dómara að framburður þessa vitnis, C, hafi verið greinargóður, skýr og trúverðugur. Lítur dómarinn á hann sem lykilvitni.
Dómarinn fann að því að brotaþoli hefði orðið margsaga um klæðaburð sinn þessa nótt en finnur þó enn meira að því að hún hafi ekki kannast við veru vitnisins C í partýinu. Má segja að sá framburður hennar hafi ýtt undir sýknun Alberts. Um þetta segir í dómnum:
„Þegar allt það er virt í heild sinni, sem rakið hefur verið hér að framan, sem og að framburður A um að vitnið C hafi yfirgefið íbúð hennar um leið og vitnin B og D, ef ekki fyrr, stangast á við framburði þessara vitna og framburð ákærða, þá verður að telja að hér sé um slík grundvallaratriði að ræða að þau dragi ekki aðeins verulega úr trúverðugleika framburðar A hvað þessi tilteknu atriði varðar, heldur einnig almennt séð og þar á meðal framburðar hennar um það að ákærði hafi
brotið gegn henni með þeim hætti sem í ákæru greinir.“
Eins og áður hefur komið fram var niðurstaðan sú að Albert var sýknaður af ákæru héraðssaksóknara um nauðgun. Dóminn, sem er langur og ítarlegur, má lesa hér.