Ian Wright, goðsögn Arsenal, var alls ekki hress er hann ræddi sóknarmanninn Erling Haaland sem spilar með Manchester City.
Haaland missti virðingu margra um helgina er hann kastaði boltanum í varnarmanninn Gabriel hjá Arsenal eftir að City hafði jafnað metin í 2-2 á lokamínútum stórleiksins á Etihad vellinum.
Haaland missti hausinn á lokasekúndunum og fór yfir strikið en dómari leiksins missti af atvikinu og einnig VAR og var Norðmanninum ekki refsað.
,,Það sem gerði mig bálreiðan var þessi ömurlega framkoma Erling Haaland,“ sagði Wright.
,,Að kasta boltanum í hausinn á Gabi þegar hann er ekki að horfa. Þú ert heigull ef þú lætur svona. Gabi myndi mæta honum andlit í andlit.“
,,Ég horfi á þetta sem einvígi frábærs varnarmanns og frábærs sóknarmanns til margra ára, ég elska að fylgjast með þessum strákum en svo læturðu eins og heigull?“
,,Það er það sem pirraði mig mest af öllu. Ég hélt að þú [Haaland] værir meiri maður en þetta.“