

Liverpool valtaði yfir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag en spilað var á Old Trafford.
Liverpool vann sannfærandi 3-0 útisigur en heimamenn mættu varla til leiks og náðu illa saman á vellinum.
Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrum leikmaður Chelsea og Barcelona, er sérfræðingur í Vellinum þessa stundina en þátturinn er sýndur á Símanum.
Eiður segir að þetta hafi í raun verið vandræðaleg frammistaða hjá heimaliðinu og jafnvel skömmustuleg.
,,Þetta var einum of auðvelt segir maður bara. Þetta var við það að vera vandræðalegt eða skömmustulegt fyrir United því Liverpool hefði hæglega getað unnið stærri sigur,“ sagði Eiður.
,,Þeir eru með níu stig eftir þrjá leiki og ekki búnir að fá mark á sig. Að vinna á Old Trafford, fyrir þá hörðustu þá er það meira en þrjú stig. Það er eins og ekkert hafi breyst hjá Liverpool og ekki United heldur en á neikvæðan hátt.“