
Arsenal gæti reynt að fá Raheem Sterling til liðs við sig á síðustu stundu áður en félagaskiptaglugganum verður skellt í lás annað kvöld. Independent segir frá.
Mikel Arteta, stjóri Skyttanna, er sagður í leit að liðsstyrk í sóknarlínuna, sérstaklega þar sem mikið álag verður á leikmönnum eftir landsleikjahlé þegar Meistaradeild Evrópu rúllar af stað.
Sterling er engan veginn inni í myndinni hjá Chelsea og má fara. Hann er hins vegar með 325 þúsund pund á viku á Stamford Bridge og gæti reynst meira en að segja það að ganga burt frá því. Arsenal er aðeins til í að borga honum 150 þúsund pund á viku.
Arteta og Sterling þekkjast vel frá því sá fyrrnefndi var aðstoðarþjálfari hjá Manchester City og Sterling leikmaður þar. Spánverjinn gæti því án efa séð not fyrir kantmanninn.
Kingsley Coman, kantmaður Bayern Munchen, hefur einnig verið orðaður við Arsenal. Al-Hilal í Sádi-Arabíu er þó klárt að borga honum stóru seðlana, fari hann þangað.