

Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands segist hafa valið Gylfa Þór Sigurðsson í landsliðshóp sinn eftir góðar frammistöður með Val.
Gylfi hefur ekki verið í hóp hjá Hareide í tæpt ár vegna meiðsla og svo var Gylfi án félags um skeið.
Gylfi hefur spilað flesta leiki Vals á þessu tímabili. „Hann er í hópnum núna því hann hefur spilað reglulega, ég hef horft á leikina. Ég sé gæðin sem Gylfi hefur, ef hann kemst á boltann þá getur alltaf eitthvað gerst,“ segir Hareide.
Gylfi er 35 ára gamall og telur Hareide að hans gæði muni nýtast. „Með þessa leikmenn í kringum sig getur Gylfi alltaf orðið betri. Hann hefur spilað mikið, hann hefur ekki verið að meiðast. Ég mun skoða hann núna, það er frábært að skoða hann í heimaleiknum gegn Svartfjallalandi.“
Ísland mætir Svartfjallalandi á föstudag í næstu viku í Þjóðadeildinni og svo Tyrkjum þremur dögum síðar.
„Þegar Gylfi fær boltann þá gerist eitthvað, það gerist í íslensku deildinni og vonandi gerist það hjá okkur.“
Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins og fær nú tækifæri til þess að bæta í þá tölu sína.