

Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands situr í sólinni á Spáni þessa dagana, hann kveðst hafa ákveðið að flýja vont veður í Noregi en er væntanlegur til Íslands á sunnudag.
Hareide sagði að sólin færi vel í sig og væri góð fyrir heilsuna. Einn íslenskur landsliðsmaður er að venjast góðu veðri því Jóhann Berg Guðmundsson fór í síðustu viku til Sádí Arabíu.
Jóhann samdi þá við Al-Orobah í úrvalsdeildinni þar í landi. Vonast Hareide til að sólin og hitinn hjálpi Jóhanni að vera í betra formi en áður?
„Það er ekki það sama og ég sem er eldri, ég þarf ekki að hlaupa,“ sagði Hareide og glotti.
Jóhann spilaði sinn fyrsta leik á föstudag í Sádí Arabíu og spilar aftur í kvöld. „Það voru 43 gráður þegar hann spilaði síðasta leik, hann hefur spilað sinn fyrsta leik. Jóhann þarf að venjast veðrinu, svo lengi sem hann spilar reglulega þá er hann í mínum plönum,“ segir Hareide.
Hareide kveðst hafa hringt í Jóhann þegar hann fór til Sádí Arabíu til að forvitnast um það hvort hann hefði áfram metnað fyrir landsliðinu. „Metnaðurinn, hann vill ólmur spila fyrir Ísland. Það sem þú sást á Evrópumótinu, þú sást leikmenn á EM koma úr deildinni í Sádí Arabíu og margir gerðu vel. Vonandi finnur Jóhann sinn takt þarna, við þurfum að sjá á hvað getustigi hann er að spila. Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og vonandi helst hann heill.“