
Jadon Sancho fer líklega frá Manchester United fyrir gluggalok og eru tvö félög líklegust til að hreppa hann. The Athletic fjallar um málið.
Sancho virðist ekki vera inni í myndinni hjá Erik ten Hag, stjóra United. Þeir áttu í stríði á síðustu leiktíð sem endaði með því að kantmaðurinn var lánaður aftur til Dortmund, en í sumar bárust þær fréttir úr herbúðum United að þeir hefðu átt sáttarfund.
Þrátt fyrir það hefur Sancho verið utan hóps hjá United í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.
The Athletic segir United bæði vera í viðræðum við Chelsea og Juventus um Sancho. Rauðu djöflarnir vilja losna við leikmanninn og eru bæði til í að selja hann eða lána hann.
Svo virðist sem það yrði einfaldara fyrir Juventus að fá Sancho þar sem Chelsea þarf að losa menn á móti til að búa til pláss fyrir Englendinginn. Raheem Sterling er sem dæmi leikmaður sem enska félagið er að reyna að losa.