

Leikmannasamtökin á Englandi vilja setja blátt bann á það að félög geti hreinlega bannað leikmönnum að mæta á æfingar eins og Chelsea er farið að gera.
Þannig eru 13 leikmenn úr aðalliði Chelsea látnir æfa einir og sér þessa dagana, Enzo Maresca vill ekki hafa þá á æfingum.
Raheem Sterling, Ben Chilwell og Trevoh Chalobah eru þar á meðal. Allt eru það leikmenn sem Chelsea vill selja.
Í stað þess að láta þá áfram æfa með liðinu hefur Chelsea sett þá út í kuldann og leikmennirnir fá ekki að æfa með liðinu.
Þetta telja leikmannasamtökin óeðlilegt og vilja setja blátt bann við því sem er kallað á Englandi „bomb squad“.
Leikmannasamtökin hafa rætt málið við Chelsea og fleiri félög sem hafa beitt þessum aðferðum til að reyna að koma leikmönnum burt.