
Chelsea og Manchester United gætu skipst á leikmönnum fyrir gluggalok ef marka má enska miðla.
Jadon Sancho er orðaður við Chelsea en Sky Sports segir enska félagið sem og Juventus hafa áhuga á Englendingnum. Þar kemur einnig fram að Chelsea gæti sent leikmann í hina áttina og annars staðar er því velt upp hvort leikmennirnir sem um ræðir séu Raheem Sterling eða Ben Chilwell, sem eru úti í kuldanum á Stamford Bridge.
Sancho virðist ekki vera inni í myndinni hjá Erik ten Hag, stjóra United. Þeir áttu í stríði á síðustu leiktíð sem endaði með því að kantmaðurinn var lánaður aftur til Dortmund, en í sumar bárust þær fréttir úr herbúðum United að þeir hefðu átt sáttarfund. Þrátt fyrir það hefur Sancho verið utan hóps hjá United í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.
Samkvæmt Sky Sports vill United helst selja Sancho ef hann fer annað, en það kemur líka til greina að hleypa honum burt á láni.
Félagaskiptaglugganum verður skellt í lás á föstudagskvöld.