

Það vakti athygli í gær þegar söngvarinn heimsfrægi Ed Sheeran yfirgaf Anfield í hálfleik er hans menn í Ipswich spiluðu við Liverpool.
Staðan var markalaus í hálfleik en Liverpool kom sterkari til leiks í seinni hálfleiknum og vann að lokum 2-0 sigur.
Sheeran hefur stutt Ipswich allt sitt líf og keypti nýlega lítinn hlut í félaginu sem tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni síðasta vetur.
Sheeran var þó hvergi sjáanlegur í seinni hálfleiknum en ástæðan er sú að hann þurfti að ná flugi til Serbíu.
,,Já, ég mun halda tónleika í Serbíu í kvöld,“ sagði Sheeran en tónleikarnir voru haldnir á Usce Park í Belgrad.
Því miður fyrir Sheeran þá töpuðu hans menn viðureigninni en Liverpool er með töluvert sterkara lið og réðu nýliðarnir ekki við þá rauðklæddu í síðari hálfleik.