

Ansi skondið atvik átti sér stað í beinni útsendingu hjá TNT Sport í gær er leikur Ipswich og Liverpool fór fram.
Mohamed Salah átti stórleik fyrir Liverpool í seinni hálfleik en frammistaða liðsins í þeim fyrri var ekki upp á marga fiska.
Jermaine Jenas, fyrrum leikmaður Tottenham, lýsti leiknum ásamt Darren Fletcher og hrósaði Salah sem skoraði og lagði upp í 2-0 sigri.
Jenas sagði að Salah væri eini ljósi punkturinn í liði Liverpool á ákveðnum tímapunkti en það var á meðan Liverpool var í vandræðum með heimamenn.
Fletcher sagði nákvæmlega það sama stuttu seinna eða eftir stoðsendingu egypska landsliðsmannsins sem fór ekki beint vel í Jenas.
,,Þú varst ekkert að hlusta á það sem ég var að segja, er það? Ég sagði þetta fyrir tveimur sekúndum,“ sagði Jenas og hljómaði nokkuð pirraður.
Fletcher baðst afsökunar í útsendingunni og sagðist hafa verið að hlusta á dagskrárstjóra TNT á þeim tímapunkti.
Jenas svaraði: ,,Tveir hlutir í einu Fletch, það er okkar starf,“ sagði fyrrum enski landsliðsmaðurinn sem virtist samþykkja þessa ‘afsökunarbeiðni.’