Patrice Evra, fyrrum leikmaður Manchester United og franska landsliðsins, hefur verið dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Frá þessu greinir Le Parisien í Frakklandi en Evra er dæmdur fyrir að yfirgefa fjölskyldu sína í heil tvö ár.
Evra er talinn skulda 800 þúsund pund í meðlag en hann hefur lítið sem ekkert hjálpað fjölskyldu sinni.
Evra er enn giftur Sandra Evra og eiga þau saman tvö börn en hafa verið aðskilin alveg frá árinu 2020.
Fyrrum landsliðsmaðurinn sótti um skilnað en hann hefur ekki gengið í gegn á þessum fjórum árum.
Þessi bardagi mun væntanlega halda áfram fyrir framan dómara í dágóðan tíma en Evra hefur sjálfur ákveðið að hafna allri sök og mun áfrýja.