Vandræðagemsinn Mario Balotelli er nú orðaður við brasilíska félagið Corinthians í fjölmiðlum þar í landi.
Hinn 33 ára gamli Balotelli er á mála hjá Adama Demirspor í Tyrklandi. Samningsstaða hans þar er í raun óljós en félagið hefur möguleika á að framlengja samnig hans um eitt ár. Nýti það sér það ekki er ítalski framherjinn hins vegar frjáls ferða sinna.
Balotelli er opinn fyrir því að fara til Corinthians en sá hængur er á að kappinn vill 4 milljónir punda í árslaun. Það gera um 75 þúsund pund á viku. Það er ólíklegt að Brassarnir hefðu efni á því og þarf Balotelli því væntanlega að lækka kröfurnar ef þetta á að ganga upp.
Balotelli hefur átt flottan feril og leikið fyrir lið á borð við Liverpool, Manchester City, AC Milan og Inter.