Það gæti vel verið að fyrrum landsliðsmaður Englands, Peter Crouch, hafi rétt fyrir sér með því að bauna létt á gagnrýnendur Harry Kane.
Kane er fyrirliði Englands og markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins en hann hefur ekki verið upp á sitt besta á EM í sumar.
Margir kölluðu eftir því að Kane yrði bekkjaður gegn Hollandi í undanúrslitum í kvöld en auðvitað er hann í byrjunarliðinu.
,,Stundum líður mér eins og hann fái ekki þá virðingu sem hann á skilið – hann er markahæsti leikmaður í sögu Englands,“ sagði Crouch.
,,Það er ekki eins og hann sé að spila í Sádi Arabíu eins og Cristiano Ronaldo, hann var að raða inn mörkum fyrir eitt stærsta félag heims í fyrra.“
,,Ég ætla ekki að neita því að hann hafi verið týndur í sumum leikjum á EM og ekki spilað eins vel og aðrir leikmenn en ég myndi alltaf velja hann.“