Það muna flestir eftir því þegar Cristiano Ronaldo þurfti að fara af velli snemma leiks vegna meiðsla í úrslitaleik EM 2016 milli Portúgal og Frakklands. Fyrrum liðsfélagi hans ræðir þennan leik í nýju viðtali.
Ronaldo fór af velli eftir um 25 mínútna leik. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og því var farið í framlengingu, þar sem Portúgal vann heldur óvænt með marki Eder á 109. mínútu.
Það er óhætt að segja að Ronaldo hafi tekið að sér hlutverk þjálfara eftir að hann fór út af. Oft hefur verið rætt að hann hafi átt stóran þátt í því að sigla sigrinum heim með nærveru sinni og hvatningarorðum inn á völlinn.
Jose Fonte spilaði allan leikinn og segir að menn hafi hins vegar ekkert verið að spá í Ronaldo á hliðarlínunni.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn vorum við bara að einbeita okkur að því að vinna leikinn. Það var bara eftir leikinn sem við áttuðum okkur á því hvað hann og þjálfarinn voru að gera,“ segir hinn fertugi Fonte.