Dan hefur vakið gríðarlega athygli fyrir þyngdartap sitt á árinu, en frá því í janúar og þar til í júní, skömmu fyrir EM, missti hann tæp 40 kíló. Endaði hann á að keppa í vaxtarræktarmóti á dögunum þar sem hann hreppti bronsið.
Dan, sem er um 1,70 metrar á hæð, vó tæp 110 kíló í janúar þegar hann ákvað að taka sig á. Gerði hann það í kjölfar þess að hann komst að því að hann og kærasta hans ættu von á barni í haust. Sá hann þetta sem sitt tækifæri.
Í fimm mánuði lyfti hann eldsnemma á morgnanna, gekk 10 þúsund skref á dag og tók um 40 mínútna brennsluæfingu á kvöldin. Þá hætti hann að drekka áfengi og borða óhollan mat. Með þessu missti hann ekki aðeins tæp 40 kíló heldur fór fituprósenta hans einnig úr 40% í 5%.
„Ég hef alltaf verið feitur en mig langaði alltaf í vaxtarrækt svo þegar ég komst að því að ég væri að verða pabbi fannst mér þetta vera eina tækifærið,“ segir Dan, sem nýtur þess þó nú að borða og drekka það sem hann vill á EM í Þýskalandi.
Dan segir matarræði hans hafa farið úr ruslfæði og bjór í próteindrykki, kjúkling og grænmeti. Hann hafi á þessum fimm mánuðum oft dauðlangað í eitthvað annað en sér ekki eftir neinu.
Svo gæti farið að Dan keppi fyrir hönd Bretlands á HM í vaxtarrækt í október. Hann ætlaði sér aldrei að taka þátt í fleiri mótum en þessu eina á dögunum en það gæti verið erfitt að hafna sæti á mótinu í Seúl.