Sem fyrr segir mætir Ísland Þjóðverjum á föstudag en á þriðjudag heimsækir liðið Pólland. Með sigri í öðrum af þessum leikjum er EM sætið tryggt.
„Þetta er rosalega skemmtilegt verkefni. Mér finnst við eiga smá inni frá síðasta leik. Við erum búnar að spila á móti þeim oft undanfarið og mér finnst framistöðurnar alltaf verða betri og betri. Ég held við getum gefið þeim alvöru leik á föstudaginn,“ sagði Sandra María, en Þýskaland vann leikinn ytra 3-1.
„Við getum tekið marga jákvæða punkta úr þeim leik og farið yfir hvað var að klikka en heilt yfir var bara mjög margt jákvætt í okkar leik sem við þurfum að endurtaka og gera enn betur núna á föstudag.“
Sandra María er að eiga stórgott tímabil með Þór/KA í Bestu deildinni. Hún er komin með 15 mörk í 12 leikjum.
„Það er búið að ganga vel í sumar. Liðið er búið að spila vel og mér persónulega búið að ganga vel í að skora mörk. Það er vonandi eitthvað sem ég get tekið með inn í þetta verkefni.“
Nánar er rætt við Söndru Maríu í spilaranum hér ofar.