Declan Rice, landsliðsmaður Englands og leikmaður Arsenal, væri til í að sjá meiri jákvæðni frá ensku pressunni í garð landsliðsins á EM, sérstaklega frá fyrrum leikmönnum.
England er með 4 stig í riðli sínum eftir sigur á Serbum og jafntefli gegn Dönum. Frammistaðan hefur þó ekki verið sannfærandi, sérstaklega ekki í leiknum gegn Dönum.
Rice var spurður að því í viðtali við ITV hvort hann væri vonsvikinn með það hversu hörð gagnrýni hefur komið frá fyrrum leikmönnum enska landsliðsins, mönnum sem hafa verið í sömu sporum. Menn eins og Gary Lineker hafa verið harðorðir í garð liðsins undanfarið.
„Ég er ekki vonsvikinn því ég hef spilað fótbolta nógu lengi til að vita hvernig þeir starfa. Þeir hafa rétt á sinni skoðun. Þeir sitja í sjónvarpinu og mega segja það sem þeir vilja. Ég þekki suma þarna persónulega og þetta eru frábærir menn,“ sagði Rice.
„Þeir hafa samt verið í okkar sporum og ekki staðið sig á stórmótum. Ég skil ekki af hverju umræðan er eins og við séum að detta úr leik, við erum efstir í riðlinum. Við þurfum jákvæðni, gefið leikmönnum mesta sjálfstraust í heimi frekar. Segið leikmönnum eins og Phil Foden, Bukayo Saka og Jude Bellingham að þeir séu bestir í heimi. Þeir lesa það og gefa allt sem þeir eiga.“