fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
433Sport

Halldór Armand skrifar beittan pistil – „Það sér hver maður að þetta er algjör misskilningur“

Helgi Fannar Sigurðsson
Mánudaginn 24. júní 2024 10:34

Halldór Armand Ásgeirsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Halldór Armand Ásgeirsson skrifaði ansi áhugaverðan pistil í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins um myndbandsdómgæslu (VAR) og notkun hennar á Evrópumótinu í fótbolta, sem nú stendur yfir.

Halldór er á því að VAR taki fegurðina að mörgu leyti úr leiknum. Mistök dómara séu það sem geri leikinn mannlegan, leikurinn sé gallaður líkt og maðurinn sjálfur.

„Á Evrópumótinu í fótbolta eru mörk núna dæmd af vegna þess að augnhár leikmanns var rangstætt samkvæmt ofurnákvæmri dómgæslutækni. Það er orðið óbærilegt að horfa á íþróttina því fyrsta hugsunin þegar mark er skorað er alltaf: Ætli það sé einhvern veginn hægt að ógilda þetta mark? Strauk boltinn mögulega fingurnögl í aðdraganda marksins og þess vegna er hendi? Eru einhver mistök sem hægt er að leiðrétta? Mig grunar að þessi furðulega árátta að reyna að útrýma mistökum byggist á ranghugmyndinni um að skilvirkni bæti allt,“ skrifar Halldór.

„En það sér hver maður að þetta er algjör misskilningur. Mistök og hættan á þeim eru það sem gerir leikinn mannlegan og það er akkúrat þar sem töfrar hans eru faldir. Öll álfan horfir nú dolfallin á Evrópumótið í fótbolta vegna þess að já, við viljum dást að einstökum hæfileikum og já, viljum verða vitni að impróvíseruðum snilldartöktum sem gerast í hita leiksins, en líka vegna þess að innst inni skiljum við – og elskum – að leikurinn er gallaður; hann getur ekki verið annað því fólkið sem spilar hann og dæmir er gallað. Þannig speglar leikurinn okkar eigin tilvist. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt, það fer ekki allt nákvæmlega eins og það ætti að fara, mistök eru gerð sem ekki verða leiðrétt afturvirkt.“

Halldór bendir því næst á það að eftirminnilegustu augnablik fótboltans hafi mörg hver komið í kjölfar dómaramistaka. Má þar sérstaklega nefna leik Argentínu og Englands á HM 1986.

„Mark Maradona gegn Englandi á HM 1986, sem kennt er við „Hönd Guðs“, er líklega annað af tveimur frægustu mörkum fótboltasögunnar, en það hefði aldrei fengið að standa í dag. VAR-tæknin hefði skemmt það. En í sama leik skoraði Maradona líka hitt frægasta markið; „mark aldarinnar“ þar sem hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi og prjónaði sig listilega fram hjá næstum öllu enska liðinu og skoraði. Þetta mark hefði mögulega líka verið dæmt af í dag vegna þess að rétt áður var brotið á leikmanni enska liðsins án þess að dómarinn dæmdi aukaspyrnu.“

Halldór segir það að reyna að gera leikinn fullkominn með tækni snúist upp í andhverfu sína.

„Sönn ást er ekki að elska aðra manneskju þrátt fyrir galla hennar heldur vegna þeirra. Ást manna grundvallast á þessari dásamlegu mótsögn: Í gegnum ófullkomleika sinn verður fólk fullkomið í okkar augum. Með því að reyna að gera fótbolta „fullkominn“ með aðstoð óbrigðular tækni hættir hann einmitt að vera fullkominn og verður ónáttúrulegur og ómennskur, hann missir galdramátt sinn, hann tapar epík sinni. Grískar tragedíur kenna okkur að menn skapa einmitt örlög sín með tilraunum sínum til að forðast þau. Þegar Ödipus konungur áttar sig á því að hann hefur myrt föður sinn og gifst móður sinni, gert nákvæmlega sömu mistök og hann varði ævi sinni í að reyna að forðast, þá bregst hann við með því að stinga úr sér augun af harmi. Við þurfum að gera hið sama við VAR-tæknina. Við þurfum blindu til að fá sýn að nýju.“

Pistilinn í heild má lesa hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Í gær

England: City missteig sig gegn versta liðinu – Flottur sigur Everton

England: City missteig sig gegn versta liðinu – Flottur sigur Everton
433Sport
Í gær

Besta deildin: Vestri aftur á toppinn eftir góðan sigur

Besta deildin: Vestri aftur á toppinn eftir góðan sigur