Sven-Goran Eriksson fyrrum þjálfari enska landsliðsins er með ólæknandi krabbamein og hafa læknar ekki gefið honum langan tíma.
Eriksson er 76 ára gamall en í viðtali í Svíþjóð segir hann frá heimsókn frá David Beckham á dögunum.
Eriksson gerði Beckham að fyrirliða enska landsliðsins þegar þeir unnu saman frá 2001 til 2006.
„Hann kom með sex lítra af víni sem voru framleidd á árum sem eru mér mikilvæg,“ segir Eriksson.
„Hann var með vín frá 1948, árið sem ég er fæddur. Hann er svo einlægur, hann hefði getað orðið hrokafull týpa en hann er alltaf svo hjartahlýr.“
Beckham sendi einkakokk sinn til Svíþjóðar degi áður til að undirbúa veislu fyrir sig og Eriksson á heimili hans.
„Beckham borðaði sænskan mat, deginum áður kom kokkurinn hingað. Við sátum allan daginn og ræddum fótbolta.“
„Þetta sannar bara fyrir mér hversu góð manneskja hann er. Hann þurfti ekki að koma en ég var stoltur að fá hann í heimsókn.“