Vitaliy Mykolenko, leikmaður Úkraínu og Everton, viðurkennir það fúslega að hann viti ekkert um fótbolta eftir spá sem hann henti fram fyrir helgi.,
Mykolenko spáði að Skotland myndi ná allavega stigi í opnunarleik EM gegn Þýskalandi en viðureigninni lauk með 5-1 sigri heimamanna.
Mykolenko er sjálfur með Úkraínu á lokamótinu en liðið spilar við Rúmeníu á morgun.
Skotland sá aldrei til sólar í leiknum gegn Þýskalandi en lék allan seinni hálfleikinn manni færri.
,,Ég hélt með Skotlandi og sagði að þetta myndi enda með jafntefli eða sigri Skota,“ sagði Mykolenko.
,,Ég fattaði um leið að ég veit ekkert um fótbolta því þeir áttu ekki einu sinni skot á markið.“