Juventus er að undirbúa fyrsta tilboð sitt í Mason Greenwood, leikmann Manchester United. Gianluca Di Marzio, virtur ítalskur blaðamaður, greinir frá þessu.
Fyrsta tilboðið mun hljóða upp á 25 milljónir punda en það er talið nokkuð frá því sem United vill. Enska félagið vill 42 milljónir punda fyrir Greenwood, sem á ár eftir af samningi sínum.
Juventus er ekki eina félagið á eftir Englendingnum unga, sem heillaði á láni hjá Getafe á síðustu leiktíð. Atletico Madrid, Barcelona og Dortmund eru einnig sögð áhugasöm. Sjálfur er Greenwood þó sagður mest spenntur fyrir Juventus.
Greenwood skoraði átta mörk og lagði upp sex í La Liga á nýafstaðinni leiktíð. Kappinn á ár eftir af samningi sínum við United en ekki er talið að hann eigi framtíð á Old Trafford.