Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann af Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fyrir hegðun sína eftir leik gegn Breiðabliki á dögunum. Félag hans hefur þá verið sektað um 50 þúsund krónur fyrir hegðun stuðningsnmanna þess á leiknum.
Aganefndin tók málið fyrir í dag og var þar stuðst við frásögn eftirlitsmanns KSÍ á leiknum. Hljóðaði hún svona:
„Varðandi framkomu aðkomuliðs gerðist leikmaður nr. 19 sekur um að kasta vatnsbrúsa sem hann tók upp við hlaupabraut í stuðningsmenn heimaliðs sem voru uppi í stúkunni. Atvikið átti sér stað að leik loknum og leikmenn á leið til búningsklefa. Atvik átti sér stað er aðkomulið jafnaði leikinn að áhangendur Víkinga kveiktu í bengal blysi og vörpuðu úr stúkunni. Ekki er hægt að horfa framhjá því hversu hættuleg slík blys eru og geta hæglega myndað alvarlegan eld.“
Í úrskurði aganefndar er einnig birt greinagerð Víkings. Þar er bent á að ókvæðisorðum úr stúkunni hafi verið beint að Danijel í aðdraganda atviksins. Einnig að það hafi tíðkast að stuðningsmenn séu með blys hér á landi án þess að nokkuð sé í því gert. Að því sögðu hljóðar niðurstaða aganefndar svona:
„Að teknu tilliti til greinargerðar Víkings R. og annarra fyrirliggjandi gagna er það álit agaog úrskurðarnefndar að framkoma áhorfenda Víkings R. sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns á leik liðsins við Breiðablik hafi verið vítaverð og hættuleg öðrum áhorfendum á leiknum. Samkvæmt því fellur framkoma áhorfenda Víkings R. undir grein 13.9.d) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Með vísan til þessa hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið að sekta knattspyrnudeild Víkings R. um kr. 50.000,-.
Hvað varðar framkomu leikmanns Víkings R., Danijel Dejan Djuric,sem lýst er í fyrrnefndri skýrslu eftirlitsmanns, er það mat aga- og úrskurðarnefndar að framkoma leikmanns hafi verið alvarleg og óíþróttamannsleg. Hefur nefndin því ákveðið, með vísan til ákvæða 13.9.f) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál og grein 44.2 c) laga KSÍ að úrskurða Danijel Dejan Djuric, leikmann Víkings R. í mfl. karla, í tveggja leikja bann í Íslandsmóti. Leikbann Danijel Dejan Djuric tekur gildi kl. 12 á morgun miðvikudag 12. júní 2024, sbr. grein 9.2.“